Eitt af þemunum í viðauka 1 í INSPIRE tilskipuninni er viðmiðunarhnitakerfi (e. Coordinate Reference System | CRS). Það skal nota við birtingu og geymslu annarra INSPIRE þema Íslands og því var forgangsverkefni Landmælinga Íslands að gera tillögu að því. En fyrst skulum við aðeins fara yfir hvað viðmiðunarhnitakerfi er.
Til að birta landupplýsingar á korti þarf að skilgreina viðmið (e. Datum), hnitakerfi (e. Coordinate system) og vörpun (e. Projection). Viðmiðunarhnitakerfi er hnitakerfi sem tengt er við raunheiminn með viðmiðun, skv. EN ISO 19111 staðlinum. Það á við um hnitakerfi byggð á jarðmiðjuhnitum (e. Geodetic coordinates) eða Cartesískum hnitum (e. Cartesian coordinates) sem og á vörpunum. Ólíkt öðrum þemum INSPIRE er viðmiðunarhnitakerfið ekki niðurhalanleg skrá eða nokkuð sem hægt er að skoða beint heldur skilgreining á notkun eða birtingu gagnanna.
Viðmiðunarhnitakerfin þurfa að uppfylla nokkrar kröfur sem taldar eru upp í leiðarvísi (e. Guidelines) fyrir þemað. Eftirfarandi kröfur eru teknar upp úr leiðavísinum:
Krafa 2: Skal vera í samræmi við ITRS (International Terrestrial Reference System) sé svæðið utan viðmiðunarhnitakerfis ETRS89 (European Terrestrial Reference System 1989).
Krafa 3: Notast skal við GRS80 sporvöluna til að reikna lengd, breidd og sporvöluhæð, einnig til að reikna tvívíð hnit í viðeigandi vörpun.
Krafa 4: Til að birta tvívíð hnit skal nota Lamberts stefnuháða jafnflatarvörpun (e. Lambert azimuthal equal area) , Lamberts hornsanna keiluvörpun (e. Lambert conformal conic, LCC) eða þverstæða Mercatorvörpun (e. Transverse Mercator).
Krafa 5: Aðilar utan meginlands Evrópu skulu annars velja heppilegustu vörpunina fyrir sitt svæði.
Tillaga Landmælinga Íslands er sú að notað sé Landshnitakerfið og Lamberts hornsönn keiluvörpun skv. 9. gr. reglugerðar nr. 685/2008 með ISN2004 viðmiðuninni skv. 4. gr. sömu reglugerðar. Þessi samsetning uppfyllir kröfur 2 – 5 í leiðarvísinum og því kjörið að nota hnitakerfi og viðmiðun Íslenska ríkisins í alþjóðlegum samskiptum.
Einnig er kveðið á um hæðakerfi (e. Vertical Reference System | VRS) í þemanu og leggur eftirfarandi krafa línurnar fyrir þau.
Krafa 9: Sé viðkomandi svæði utan EVRS (European Vertical Reference System) skal nota annað kerfi sem einnig byggir á þyngdarafli jarðar til að tákna þyndarafls tengdar hæðir.
Landmælinga Íslands leggja til að nýútgefið Landshæðakerfi Íslands og hæðarviðmiðunin ISH2004 verðin notuð fyrir INSPIRE þemun. Það er eina landsþekjandi hæðakerfið á Íslandi til þessa og uppfyllir kröfu 9.
Samsett tillaga er því:
Landshnitakerfið skv. 9. gr. reglugerðar nr. 685/2008
Lamberts hornsönn keiluvörpun
ISN2004 viðmiðun
ISH2004 hæðarviðmiðun Landshæðarkerfis Íslands
Taka skal fram að þessi tillaga nær að svo stödd aðeins til INSPIRE þemanna svokölluðu í viðaukum 1-3 INSPIRE tilskipunarinnar, þ.e. að þau séu geymd og birt með þessum skilgreiningum. Þetta nær ekki til allra landupplýsinga sem skráðar eru í landupplýsingagáttina undir merkjum grunngerðar fyrir landupplýsingar á Íslandi. Þau gögn sem falla undir þemun hafa ekki að fullu verið valin og ekki mun fara á milli mála hvaða gögn það eru þegar að því kemur.
Athugasemdir varðandi grunngerð landupplýsinga má senda á netfangið: elf@lmi.is