Á dögunum komu tveir starfsmenn Skógasafns í heimsókn til Landmælinga Íslands. Þeir voru komnir til að sækja muni sem hafa verið í eigu stofnunarinnar til margra ára.
Flestir munanna voru til sýnis á sýningunni „Í rétta átt“ á Byggðasafninu að Görðum sem tekin var niður síðasta vor.
Stærsti gripurinn sem fer til varðveislu á Skógasafn er Willysjeppi árgerð 1946, sem keyptur var af Landmælingum Íslands í kringum árið 1995 og var endurgerður til að líkjast þeim jeppum sem notaðir voru í mælingaleiðöngrum.
Aðrir munir sem afhentir voru Skógasafni eru m.a. vaxmyndadúkkan Teddi og bakpokinn hans, hornamælitæki og þrífótur, mælipunktur, mælistika, basis, vindhlíf, vinnulukt, klifsöðull, myndir af landmælingamönnum og veggspjald frá sýningunni „Í rétta átt“.
Landmælingar Íslands hafa gert samkomulag við Skógasafn um varðveislu og eign þessara muna um ókomna tíð og erum við safninu afar þakklát fyrir gefa þessum gömlu munum áframhaldandi líf með því að leyfa gestum og gangandi að skoða þá og fræðast um landmælingar fyrri tíma.